Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík aftur á toppinn – Þróttur hafði betur í Suðurnesjaslag
Dominik Radic skoraði tvö mörk fyrir Njarðvík í gær. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 14. júní 2024 kl. 12:15

Njarðvík aftur á toppinn – Þróttur hafði betur í Suðurnesjaslag

Njarðvík vann góðan sigur á ÍR í Lengjudeild karla í knattspyrnu þegar liðin mættust á Rafholtsvellinum í gær. Á sama tíma gerðu Þróttarar góða ferð til Sandgerðis þar sem þeir unnu sigur á Reynismönnum í annarri deild karla.

Njarðvík - ÍR 3:0

Dominik Radic skoraði snemma leiks eftir góðan undirbúning Tómasar Bjarka Jónssonar sem fór vel í gegnum vörn ÍR-inga með flottu samspili við Kaj Leo Í Bartalstovu, Tómas sendi fastan bolta fyrir markið þar sem Radic kom aðvífandi og afgreiddi sendinguna fagmannlega í netið (5').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir rúmlega korters leik sendi Arnar Helgi Magnússon frábæra sendingu frá eigin vallarhelmingi inn fyrir vörn ÍR beint á Oumar Diouck sem var einn á auðum sjó sem náði ekki almennilegu valdi á boltanum og reyndi að vippa yfir markvörð gestanna. Diouck er vanur að nýta svona færi en í þetta skipti tókst honum ekki betur upp en svo að boltinn fór beint í hendurnar á markverðinum og dauðafæri í súginn.

Diouck var ekki sáttur við hvernig hann fór með færið.

Skömmu síðar sækja Njarðvíkingar hratt og Skotarnir Kenneth Hogg og Marc McAusland eltu stungusendingu upp að endamörkum þar sem Hogg vann hornspyrnu. Oumar Diouck tók hornið og sendi á nærstöng þar sem Arnar Helgi stakk sér fram fyrir pakkann og fleytti boltanum í markið (21').

Arnar Helgi gerði virkilega vel þegar hann skoraði með skalla eftir hornspyrnu Oumar Diouck.

Skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks sóttu ÍR-ingar hart að marki Njarðvíkinga en vörn heimamanna tókst að bægja hættunni frá að lokum eftir að hafa verið í algerri nauðvörn og mildi að gestirnir hafi ekki náð að minnka muninn.

Heimamenn leiddu því 2:0 í hálfleik og héldu þeirri forystu allt þar til á 87. mínútu en þá sýndi varamaðurinn Amin Cosic góða takta þegar hann komst inn í laka sendingu ÍR-inga á eigin vallarhelmingi. Cosic spretti inn í teig, lék laglega á McAusland og náði skoti sem markvörður ÍR varði en Dominik Radic, sem lúrði á fjærstöng, náði frákastinu og gulltryggði þriggja marka sigur (87').

Amin Cosic leikur á Marc McAusland.
Radic lúrir eins og gammur tilbúinn að hirða frákastið.

Njarðvíkingar gefa ekkert eftir í toppbaráttunni og viðsnúningurinn á liðinu er mikill frá síðasta tímabili. Þeir hafa gott sjálfstraust og það hefur mikið að segja en Njarðvíkingar hafa spilað einstaklega vel á tímabilinu, þeir halda boltanum vel og láta hann ganga manna á milli oghafa oftast góð tök á leikjunum. Njarðvíkingar geta verið eldfljótir að sækja fram á við og hafa hraða sóknarmenn eins og Oumar Diouck og Dominik Radic í framlínunni – og ekki skemmir fyrir að hafa unga og spræka menn á bekknum á borð við þá Freystein Inga Guðnason og Amin Cosic sem ólmir vilja sanna sig og koma eins og hressandi vítamínsprauta fyrir liðið þegar þeir hafa fengið að spreyta sig með liðinu. 

Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur verið að gera frábæra hluti með Njarðvíkurliðið en hann tók við því þegar Njarðvík var í bullandi fallbaráttu á síðasta tímabili en bjargaði sér frá falli með allra minnsta mun.

Með sigrinum fóru Njarðvíkingar í efsta sæti deildarinnar, tveimur stigum upp fyrir Fjölnismenn eiga leik gegn Þór frá Akureyri til góða. Umferðin klárast á laugardag.

Leik Njarðvíkur og ÍR má sjá í spilaranum neðar á síðunni og þá er myndasafn Jóhann Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, neðst á síðunni.


Reynir - Þróttur 0:2

Maður leiksins í gær, Jóhann Þór Arnarsson. Myndir/Helgi Þór Gunnarsson

Jóhann Þór Arnarsson var á skotskónum í gær þegar hann skoraði bæði mörk Þróttar (10' og 38') sem vann mikilvægan 2:0 sigur á Reyni í annarri deild karla.

Með sigrinum fór Þróttur upp í sjötta sæti deildarinnar en Reynismenn sitja í því tíunda með fjögur stig, einu stigi fleiri en KFG og KF sem bæði eiga leik til góða.


Njarðvík - ÍR 3:0

Njarðvík - ÍR (3:0) | Lengjudeild karla 13. júní 2024